Sjúkrahótel við Hringbraut
2019
Á hótelinu eru 75 herbergi, veitingasalur og aðstaða fyrir fjölskyldur, auk stoðrýma. Byggingin er staðsett á norðurhluta lóðar Landspítala við Hringbraut milli Kvennadeildar, K-byggingar og Barónsstígs, áfast gamla Ljósmæðraskólanum.
Sjúkrahótelið er fjöggura hæða auk kjallara og tengist það Barnaspítala Hringsins og Kvennadeild um tengigang í kjallara. Byggingin er 4.258 fermetrar að stærð með kjallara og tengigöngum sem tilheyra hótelinu. Við hönnunina var mikil áhersla lögð á vistvæn byggingarefni og -aðferðir. Byggingin hlaut vistvæna vottun (BREEAM) samkvæmt alþjóðlegum stöðlum og hlaut þá hæstu einkunn sem bygging á Íslandi hefur fengið til þessa.
Húsið er staðsteypt og einangrað að utan, klætt með granítklæðningu sem er sambærileg þeirri sem er á Barnaspítala Hringsins. Steinklæðningin er útfærð í samstarfi við myndlistarmanninn Finnboga Pétursson og er í raun listskreyting hússins en listaverkið er unnið samkvæmt samkomulagi við Listskreytingarsjóð.
Efnisval innandyra tók mið af starfseminni og þeirri staðreynd að dvalartími hótelgesta er lengri en almennt gerist á hótelum. Leitast var við að koma til móts við fjölbreyttar þarfir þeirra sem hótelið nota en miðað var við að gestirnir yrðu ýmist einstaklingar sem eru að jafna sig eftir aðgerðir, fólk í eftirmeðferð, rannsókn eða lyfjagjöf, og aðstandendur sjúklinga eða hótelgesta.
Aðalhönnuðir sjúkrahótelsins eru Koan-hópurinn sem samanstendur af arkitektastofunum Glámu-Kími og Yrki og verkfræðistofunum Conís og Raftákni. Til ráðgjafar voru Verkís (eldvarnir og hljóðvist) og Verkhönnun (BREEAM – vottun). Hljóðvistarhönnun og brunatæknileg hönnun var unnin í samstarfi við Verkís og forhönnun, skipulagsgerð, hönnun gatna og lóðar var unnin af Spital-hópnum.
Sjúkrahótelið var tekið í notkun vorið 2019.
Ljósmyndir: © Nanne Springer